Útsetningar og tónlistarstjórn á söngleiknum vinsæla Litla stúlkan með eldspýturnar í íslensku óperunni 2004
Tóndæmi væntanleg...
Söngleikurinn Litla stúlkan með eldspýturnar eftir Keith Strachan, Leslie Stewart og Jeremy Paul, sem byggður er á samnefndu ævintýri eftir H.C. Andersen, var frumsýndur í Íslensku óperunni laugardaginn 23. október. Uppsetningin er samstarfsverkefni framkvæmdahópsins Flóðs og fjöru, söngskólans Domus Vox og Íslensku óperunnar og styrkt af H.C. Andersen sjóðnum.
Söngleikurinn er byggður á sögu H. C. Andersen sem flestir Íslendingar kannast við. Litla stúlkan fær að finna fyrir einmanaleika, grimmd og andúð allt í senn en gleymir sér þó annað slagið í dagdraumum þar sem lífið leikur við hana. Hún missti móður sína mjög ung og á föður sem vill ekkert með hana hafa. Hennar helsta von er sú að amma hennar sem dó í fyrra komi til hennar yfir jólin. Tónlistin í verkinu er falleg og grípandi og nær til allra.
Um það bil 60 manns koma að uppfærslu söngleiksins og þar af eru yfir 30 á aldrinum átta til tuttugu ára. Markmið verkefnisins er að gefa hæfileikaríkum börnum tækifæri til þess að taka þátt í metnaðarfullu verkefni með faglærðu fólki og hvetja þau þannig til áframhaldandi þátttöku í alls kyns listsköpun. Í sýningunni munu meðal annarra taka þátt: Valur Freyr Einarsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir, Birna Hafstein, Ívar Örn Sverrisson og Ingrid Jónsdóttir. Aðalleikkona verksins er Þórunn Arna Kristjánsdóttir, tæplega tvítug stúlka sem nemur söng við tónlistardeild Listaháskóla Íslands og kom inn í verkið í vor þegar haldnar voru opnar áheyrnarprufur.
Leikstjóri er Ástrós Gunnarsdóttir,
Listrænn framkvæmdastjóri Hafliði Arngrímsson
Söngstjóri Margrét Pálmadóttir
Tónlistarstjóri Stefán Stefánsson
Búningar: Elín Edda Árnadóttir.
Íslensk þýðing er eftir Gísla Rúnar Jónsson.
Söngleikurinn var fyrst settur upp árið 1976 undir nafninu „Scraps“. Tónlistin er skemmtileg og grípandi og eitt laganna „Mistletoe and wine“ varð sérstaklega vinsælt jólin 1987 í flutningi Cliff Richards. Sama ár var gerð sjónvarpsútgáfa af söngleiknum sem tilnefnd var til Emmy-verðlauna.